Hér er á ferð enn ein uppskrift úr minni fyrstu bók, Minn sykursæti lífsstíll, en myndirnar tók Sunna Gautadóttir, ljósmyndari.
Í bókinni er ég með sérstakan kafla um brönsj, eða dögurð, en þetta french toast hérna fyrir neðan er ein af mínum uppáhalds uppskriftum allra tíma.
Ég mæli hiklaust með að búa til svona á sunnudagsmorgnum, tja eða hvenær sem er, því þetta er svo einfalt en svo stórkostlega dásamlega gott.
Það eru til margar útgáfur af french toast og hef ég prófað ýmislegt í þeim efnum, en ég er sérstaklega hrifin af þessari blöndu af myntu, bláberjum og sítrónu.
Gúffið nú ykkur eins og enginn sé morgundagurinn!
French toast með bláberjum og myntu
Hráefni
- 6-10sneiðar dagsgamalt brauð
- 5 stór Nesbú-egg(þeytt)
- 2bollar rjómi
- 1bolli nýmjólk
- 1msk vanilludropar
- börkur af 1 sítrónu(rifinn)
- 1/4bolli púðursykur
- fersk bláber
- flórsykur
- myntulauf
Leiðbeiningar
- Takið til stórt, eldfast mót og smyrjið það vel. Skerið brauðsneiðarnar í tvennt og raðið þeim í einfalda röð í mótið. Sneiðarnar mega skarast aðeins en ekki mikið.
- Blandið eggjum, rjóma, mjólk, vanilludropum, berki og púðursykri saman í skál. Hellið blöndunni yfir brauðið þar til brauðið er næstum því allt hulið. Notið gaffal til að ýta sneiðunum létt niður.
- Leyfið þessu að standa í 20–30 mínútur við stofuhita, og þrýstið reglulega á brauðið með gafflinum. Bætið við meiri eggjablöndu ef brauðið er búið að sjúga hana alla í sig.
- Hitið ofninn í 180°C og bakið í 45–50 mínútur eða þar til brauðið er orðið gyllt að lit. Takið úr ofninum og leyfið þessu að standa í 5 mínútur.
- Dustið flórsykri yfir brauðið og skreytið með myntulaufum og bláberjum. Þetta er algjörlega skothelt!